Úthlutun, almenn stefna o.fl.

Almenn stefna um úthlutun réttindagreiðslna til rétthafa

IHM úthlutar annars vegar réttindagreiðslum sem til eru komnar á grundvelli 11. gr. höfl. og hins vegar vegna réttindagreiðslna sem til eru komnar vegna endurvarps og dreifingar sjónvarpsútsendinga og tengdra réttinda.

Aðferðir við úthlutun skulu ráðast af sanngirni og endurspegla þau réttindi sem hagnýtt eru. Til að mæta óvæntum kröfum aðila, sem standa utan IHM, og kostnaði IHM, öðrum en rekstrarkostnaði, skal árlega leggja í varasjóð 5% af heildartekjum IHM hvers rekstrarárs. Þegar höfuðstóll sjóðsins er orðinn kr. 10.000.000,- falla greiðslur til hans niður. Fjárhæð þessi skal endurskoðuð árlega miðað við verðlagsþróun og skal koma fram í ársreikningi samtakanna. Sé gengið á höfuðstólinn skulu greiðslur til hans hefjast að nýju skv. sömu reglum. Eftir að greitt hefur verið til varasjóðs samkvæmt framangreindu og fé lagt til hliðar til greiðslu rekstrarkostnaðar skal réttindagreiðslum úthlutað til rétthafa.

Úthlutað er vegna 11. gr. á grundvelli annaðhvort samkomulags hlutaðeigandi aðila sem staðfest er á fulltrúaráðsfundi eða á grundvelli gerðardóms, í samræmi við samþykktir IHM. Að jafnaði fer úthlutun fram einu sinni á ári.

Úthlutun vegna tekna vegna endurvarps sjónvarpsútsendinga og tengdra réttinda fer fram á grundvelli samkomulags hverju sinni, milli aðildarfélaga IHM og annarra aðila sem eiga réttinda að gæta af dreifingu sjónvarpsefnis. Að jafnaði fer úthlutun fram einu sinni á ári.

Nánar er kveðið á um fyrirkomulag úthlutunar, m.a. ef til ágreinings kemur, í samþykktum IHM.

Úthlutun tekna vegna innheimtu

Eftir að greitt hefur verið til varasjóðs og fé lagt til hliðar til greiðslu rekstrarkostnaðar er rekstrarafgangi samtakanna skipt á milli aðildarfélaganna sem hér segir:

  • Tekjur af auðum hljóðböndum og hljóðbandatækjum skiptast í þessum hlutföllum: STEF 39%, SFH 54%, og Rithöfundasamband Íslands 7%.
  • Tekjum af myndböndum og myndbandstækjum skiptast á milli aðildarsamtaka í þessum hlutföllum: STEF 13%, Rithöfundasamband Íslands og Hagþenkir samtals 16%, Samtök kvikmyndaleikstjóra 12%, Myndstef 3,5%, þar af er hlutdeild leikmynda- og búningahöfunda 2/3 en hlutdeild annarra myndhöfunda 1/3, Blaðamannafélag Íslands 2,5%, Félag kvikmyndagerðarmanna 4,5%, Félag leikstjóra á Íslandi 2,5%, Félag íslenskra hljómlistarmanna 10%, Félag íslenskra leikara 13%, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda 15% og Samband hljómplötuframleiðenda 8%.