IHM kapall

IHM kapall eru innheimtusamtök sem átta samtök höfunda, flytjenda og framleiðenda standa að. Þessi samtök eru STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, SFH, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SÍK, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Rithöfundasamband Íslands, Samtök kvikmyndaleikstjóra, Myndstef, Félag íslenskra leikara og Blaðamannafélag Íslands .

IHM kapall er með lögformlega viðurkenningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir starfsemi samtakanna sem byggist á því að innheimta t.d. fyrir endurvarp sjónvarpssendinga skv. 23.gr.a. í höfundalögum, en þar segir:„Verki, sem er löglega útvarpað beint eða um gervihnött, má endurvarpa til almennings um kapalkerfi óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu, að því tilskildu að sá sem ber ábyrgð á endurvarpinu hafi aflað sér heimildar til þess með samningum við samtök sem annast réttargæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á sviði viðkomandi verks og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu [ráðuneytisins]1) skv. 23. gr.“

IHM kapall hefur gert samstarfssaming við alþjóðasamtök sjónvarpsstöðva, UBO, (Union Broadcasting organisation) og fer með umboð til að semja um endurvarp á Íslandi á efni þeirra sjónvarpsstöðva sem eru innan UBO.

Með samningi við IHM kapall geta hótel og veitingahús sem vilja endurvarpa sjónvarpssendingum til gesta sinna fengið á einum stað heimild til endurvarps frá sjónvarpsstöðvum innan UBO auk heimildar frá þeim rétthöfum sem eiga hlutdeild í sjónvarpsefninu. IHM kapall hefur gert hótelsamninga við tvo aðila um endursölu á réttindum sínum, annars vegar við Media Streaming ehf. og hins vegar Símann. Til upplýsingar skal þess getið að skylda hótela sem bjóða upp á endurvarp sjónvarpsefnis, til greiðslu leyfisgjalds vegna endurvarps, hefur margoft verið staðfest af dómstólum, þ.m.t. Evrópudómstólnum.

Þær sjónvarpsstöðvar sem eru á boðsstólunum hjá IHM kapli eru frá nágrannaþjóðum okkar og eru með mjög fjölbreyttu og vönduðu efni. Þar er að finna ríkisstöðvar Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Spánar auk fleiri erlendra stöðva. Til fróðleiks er hér listi yfir sjónvarpsstöðvar sem IHM kapall semur um í samstarfi við UBO: RÚV, DR1, DR2, DR 1 HD, DR HD, DR 3, DR , DR ULTRA, NRK1, NRK2, NRK3, NRK1 HD, NRK SUPER, SVT1, SVT2, SVT1 HD, ARD, ZDF, TVE, FRANCE 2, ARTE, SAT1, RAI UNO, RAI DUO og PRO7.